Hraun er mikil hlunnindajörð. Laxveiði, silungsveiði, selveiði, sandnám, grjótnám, sölvatekja og rekaviður eru og voru helstu hlunnindi jarðarinnar.
Lögbýli
Á Hrauni eru nú skráð 4 lögbýli í byggð, Hraun 1, Hraun 1b, Hraun 2 , Hraun 2 b. Skráð óbyggð lögbýli á Hraunstorfunni eru Hraunshjáleiga ,Hraunshóll og Lágar. Áður voru Hof og Slapp einnig byggð býli í torfunni en voru felld undir móðurjörðina.
Staðsetning
Bæirnir á Hrauni standa í hraunjaðri þar sem Leitarhraunið og mun yngra apalhraun mætast, við miklar uppsprettur sem mynda myndarlegan bæjarlæk. Fyrir neðan bæina eru mýrar sem eru í jaðri svokallaðra Ölfusfora. Slægjulönd jarðarinnar voru í engjunum austur af bæjunum, miklar og gjöfular gulstararmýrar. Í miklum sjávarflóðum flæðir yfir mýrarnar neðan bæjanna og upp í bæjarlækinn.
Landgræðsla
Jörðin ber merki mikils ágangs sands sem áin hefur borið fram. Landið næst ánni að neðanverðu og hraunið upp með mörkum Þorlákshafnar er mjög sandorpið og var áður að segja má rjúkandi eyðimörk áður en farið var að græða landið upp. Mikil og góð samvinna hefur verið við Landgræðslu ríkisins við uppgræðsluna. Uppgræðsla á sjávarkambinum með melgresi og áburðargjöf hefur átt sér stað síðan 1933. Þá var stór hluti af Hraunslandi girt og friðað af Sandgræðslu ríkisins, (síðar Landgræðslu ríkisins). Frá 1969 hafa Hraunsbændur alfarið séð um landgræðslu á sínu landi en í farsælu samstarfi við Landgræðsluna. Árið 1970 ákváðu Hraunsbændur að leggja ákveðið hlutfall af arði sandsölunnar til uppgræðslu jarðarinnar. Miklu magni af áburði og fræi hefur verið dreift á landið með góðum árangri. Lúpínu hefur verið sáð í nokkur svæði á hrauninu ofan við veginn með góðum árangri. Við uppgræðslu seinni árin hefur einnig verið notaður alifuglaáburður og einnig hefur heyúrgangur verið settur í rofsár. Þá hefur trjám verið plantað á nokkrum stöðum í svæðið norðan við Eyrarbakkaveg á seinni árum. Ábúendur á Hrauni I og Hrauni 2 voru handhafar Landgræðsluverðlauna árið 2004.