Útflutningur á sandi
Eins og síðulesendum er kunnugt, er hér á Hrauni mikill sandur sem Ölfusáin ber fram. Í áratugi hefur sandur verið seldur hér, framan af nær eingöngu í pússningu veggja, úti sem inni. Síðar hefur farið mikið magn í fótbolta- og golfvelli til að bæta jarðvegsástand og til uppbyggingar vallanna.
Á síðasta ári urðu þáttarskil í sölumálum sands því ágætt fyrirtæki, Eden ehf, hóf útflutning á sandi til iðnarframleiðslu. Fáir höfðu trú á að hægt væri að gera þetta arðbært, þar sem kostnaður við að koma sandinum á áfangastað er mikill. Hins vegar reynist sandurinn afar vel og eru horfur á að salan aukist ef áætlanir ganga eftir. Þrautseigju og framsýni þeirra Edenmanna er fyrir að þakka að þetta tókst.
HK